Samræmd greining á áhættu og áfallaþoli – Vefgátt Almannavarna

Til þess að einfalda vinnu sveitarfélaga við að greina og leysa þær krísur sem upp koma á Íslandi hafa Almannavarnir útbúið vefgátt þar sem haldið er utan um samræmda greiningu í hverju sveitafélagi.  Í vefgáttinni er hægt að nálgast leiðbeiningar almannavarna fyrir greiningu á áhættu og áfallaþoli. Leiðbeiningarnar eru gerðar til að einfalda vinnu sveitarfélaga og ekki síst að hjálpa til við að greina og draga fram þá vá og/eða verkefni sem upp geta komið.

Á síðustu vikum hafa Almannavarnir kynnt þetta verkefni með ýmsum hætti. M.a. var haldið málþing fyrir ráðuneytin og í kjölfarið á því samráð við þau um leiðbeiningar og skjöl sem þau varða. Einnig hafa verið haldnir kynningarfundir fyrir ráðgjafa og leiðbeinendur sem kenna á námskeiðum sem tengjast verkefninu. Í lok apríl var svo haldin ráðstefnan „Við erum öll almannavarnir“.  

Á starfsmannafundi hjá forsætisráðuneytinu, sem haldinn var í byrjun vikunnar fengu starfsmenn ráðuneytisins kynningu á verkefninu.

Erindið var mjög upplýsandi fyrir starfsfólk og gaf innsýn inn í mikilvæga og sérhæfða vinnu við gerð áhættumats. Vinnu sem ráðuneytin þurfa að kunna og framkvæma“ sagði Eydís Eyjólfsdóttir mannauðsstjóri Forsætisráðuneytis eftir kynningu Elísabetar Pálmadóttir verkefnastjóra hjá Almannavörnum sem leitt hefur verkefnið.

Í vefgáttinni er einnig hægt að nálgast mælaborð með yfirliti yfir niðurstöður sem hægt er að fylgjast með. Þar geta t.d. íbúar hvers sveitafélags fyrir sig séð hver staðan er í sínu sveitafélagi. Vefgáttin er búin að vera í virk í nokkrar vikur og nú þegar hafa mörg sveitafélög nýtt þennan sameiginlega vettvang.  Vefgáttin gefur ekki bara notendum auðveldan aðgang að greina áhættu og áfallaþoli á sínum stað heldur gefur gáttin Almannavörnum einnig tækifæri að fá yfirsýn yfir stöðu áhættugreininga hjá öllum þeim sem þurfa að gera þær.  Sveitarfélög gegna aðalhlutverki í vinnu við að tryggja öryggi borgara og viðbúnað. Þau fara með almannavarnir í héraði sem gerir kröfu til þess að sveitarfélag vinni heildstætt og kerfisbundið að því að tryggja öryggi borgaranna og viðbúnað. Þetta undirstrikar hið mikilvæga hlutverk sem sveitarfélag hefur sem samræmingaraðili og drifkraftur í almannavarnastarfi.

Verkefnið á upptök sín í stefnuverkefni um könnun á áfallaþoli ráðuneyta, ríkisstofnana og sveitafélaga sem aftur tengist stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum en þar er eitt áhersluatriði greining á áhættu og áfallaþoli hjá framangreindum aðilum.

Vinnan við vefgáttina hefur staðið yfir á annað ár. Sú sem hefur leitt vinnuna fyrir hönd Almannavarna er Elísabet Pálmadóttir verkefnastjóri, henni til aðstoðar var Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna sem hefur haldið utan um kynningu á verkefninu gagnvart hagsmunaaðilum og haldið utan um vinnu Hvíta hússins sem hefur séð um útlitshönnun sem jafnframt hefur nýst til að móta skýrsluútlit og glæruviðmót fyrir Almannavarnir. Magga Dóra Ragnarsdóttir hjá Mennsk hélt utan um starf ráðgjafanna sem sáu um vefhönnun í verkefninu sem voru auk Mennsk, Ozio og Metadata.