Stóraukin hætta á gróðureldum á Íslandi

  • Gróðureldum hefur fjölgað um nærri þriðjung á seinustu árum
  • Starfræktur hefur verið starfshópur um varnir gegn gróðureldum
  • Nauðsynlegt er að efla viðbúnað slökkviliða með kaupum á fleiri slökkviskjólum

Tæplega 200 skráðir gróðureldar á seinasta ári

Á síðustu árum hefur hættan á gróðureldum aukist talsvert hér á landi vegna vaxandi gróðursældar og breytinga á veðurfari. Ætla má samkvæmt tölfræði HMS að gróðureldar séu orðnir stór  áhættuþáttur í náttúrunni hér á landi, enda geta þeir valdið miklu eigna- og manntjóni og kunna að skaða mikilvæga innviði. Myndin hér að neðan sýnir hvernig þróunin seinustu ár hefur verið og sést að fjöldi gróðurelda hefur næstum því þrefaldast á seinustu árum.


Mikil hætta á gróðureldum um seinustu áramót

Á suðvesturhorninu var varað sérstaklega við hættu á gróðureldum í kringum áramótin sökum veðurfars og fólk beðið um að fara með gát við notkun flugelda og meðferð elds. Þrátt fyrir slíkar aðvaranir hafa útköll aldrei verið fleiri vegna gróðurelda um áramótin, en samtals voru 84 útköll á innan við sólarhring á suðvesturhorninu. Ljóst er að mikið álag var á slökkviliðum um áramótin og mátti litlu muna að stórtjón hefði orðið en ,,mikið af þessum eldum sem kviknuðu voru rétt við hús og var mikið um brennur sem voru ekki með leyfi. Við höfum ekki séð þennan fjölda útkalla áður á þessum tíma“ er haft eftir Lárusi Kristni Guðmundssyni sem er settur varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu.

Þörf á fleiri slökkviskjólum til að efla viðbúnað slökkviliða

Á vegum HMS er að störfum starfshópur um varnir gegn gróðureldum* sem hefur meðal annars það hlutverk að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn gróðureldum. Í ljósi atburða um áramótin áréttar starfshópurinn mikilvægi þess að stjórnvöld beiti sér fyrir því að tryggja slökkviliðum og Landhelgisgæslunni aðgengi að slökkviskjólum sem lykilbúnað til að takast á við gróðurelda hvar sem er á landinu. Í dag er einungis til ein slökkviskjóla sem keypt var frá Kanada í fyrra þegar eldri skjólan eyðilagðist við slökkvistörf í Heiðmörk sl. vor og hefði því lítið mátt út af bregða svo illa færi. Að mati starfshópsins og miðað við fyrirliggjandi gögn um aukna gróðureldahættu hér á landi er nokkuð ljóst að efla þarf viðbúnað við gróðureldum með því að tryggja aðgengi að fleiri en einni slökkviskjólu svo viðbragsaðilar séu í stakk búnir að bregðast við gróðureldavánni.

*Gróðureldahópurinn er skipaður fulltrúum frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Félagi slökkviliðsstjóra, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Lögreglustjórafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun, Skógræktinni, Veðurstofu Íslands og Verkís.

Hvert tímabil er mælt frá 31. janúar til 31. janúar ár hvert til að ná utan um fjölda útkalla í kringum hver áramót.