Um almannavarnastig annarsvegar og litakóða eldfjalla til flokkunar á virkni þeirra hinsvegar.

Nokkuð hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum í dag og í gær að til greina komi að hækka viðbúnaðarstig vegna virkni í Öræfajökli í gult. Af þessu tilefni er rétt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Þann 17. nóvember 2017 ákvað ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna aukinnar virkni í Öræfajökli. Frá þeim tíma hefur aukin virkni í Öræfajökli verið viðvarandi svo ekki hefur verið talin ástæða til að aflétta óvissustig almannavarna.

Í nýlegri umfjöllun um virkni í Öræfajökli ber nokkuð á því að ruglað sé saman almannavarnastigum og litakóða eldfjalla sem Veðurstofa Íslands notar. Litakóðinn hefur skírskotun til áhrifa eldgosa á flug og er í samræmi við tilmæli Alþjóða flugmálastofnunarinnar.

Í reglugerð um flokkun almannavarnastiga (nr. 650/2009) er fjallað um hvernig þeim er lýst yfir og hvernig þau eru flokkuð. Almannavarnastigin eru þrjú, óvissustig, hættustig og neyðarstig. Þegar náttúruvá er annars vegar er:

Óvissustigi lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúruvöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.

Hættustigi lýst yfir ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúruvöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.

Neyðarstigi lýst yfir þegar hamfarir hafa orðið.

Reglugerðina um flokkun almannavarnastiga má nálgast á vefslóðinni: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/650-2009.

 

Veðurstofa Íslands notar fimm liti til að flokka virkni eldstöðva í samræmi við tilmæli Alþjóða flugmálastofnunarinnar. Litirnir eru þessir:

Grátt: Eldstöðin virðist óvirk. Vöktun er þó lítil og því er ekki hægt að fullyrða að svo sé.

Grænt: Virk eldstöð, engar vísbendingar um að gos sé væntanlegt  eða, eftir að virknin hefur verið lækkuð frá hærra stigi: Umbrot eru talin afstaðin og engar vísbendingar um að gos sé væntanlegt.

Gult: Eldstöðin sýnir merki um virkni, umfram venjulegt ástand  eða, eftir að virknin hefur verið lækkuð frá hærra stigi: Umbrot hafa minnkað markvert en vel er fylgst með, ef vera kynni að þau aukist á ný.

Appelsínugult: Eldstöðin sýnir aukna virkni og vaxandi líkur á eldgosi  eða, eldgos er í gangi, þó með lítilli eða engri öskuframleiðslu.

Rautt: Eldgos er yfirvofandi eða hafið – líklegt er að aska berist upp í lofthjúpinn  eða, eldgos stendur yfir og veruleg aska berst upp í andrúmsloftið

Nánari lýsingu á litakóða eldfjalla vegna flugs má lesa á vef Veðurstofu Íslands: http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/eldgos/.