Undirritun Landsáætlunar um heimsfaraldur

Í morgun undirrituðu Kjartan Þorkelsson, settur ríkislögreglustjóri og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir Landsáætlun um heimsfaraldur sem birt hefur verið á vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Áætlunin segir fyrir um skipulag og stjórn aðgerða vegna hvers kyns heimsfaraldurs. Áætlunin styðst við lög um almannavarnir nr. 82/2008 og sóttvarnalög nr. 19/1997. Gert er ráð fyrir að atvinnulíf í landinu verði skert í tiltekinn tíma, hluti þjóðarinnar verði rúmfastur vegna veikinda og dánartíðnin verði umfram það sem búast má við í venjulegu árferði. Áætlunin tekur til Íslendinga og ferðamanna sem staddir eru á landinu á hverjum tíma. Áætlunin tekur einnig til sóttvarnahafna og alþjóðaflugvalla og gerir ráð fyrir að virkja megi áætlun hvers flugvallar/hafnar samhliða virkjun þessarar áætlunar.

Markmið áætlunarinnar er að tryggja skipulögð og samhæfð viðbrögð aðila sem hlut eiga að máli þegar til heimsfaraldurs kemur. Ekki er um endanleg fyrirmæli að ræða og geta sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri ákveðið breytta starfstilhögun með tilliti til ástands og aðstæðna hverju sinni. Hægt er að nálgast áætlunina á vefsíðu almannavarna