Upplýsingafundur Almannavarna á morgun

Á morgun, sunnudaginn 28. janúar verður upplýsingafundur Almannavarna í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Tímasetning á fundinum kemur í ljós í fyrramálið.

Á fundinum, sem Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna stýrir, verður skipulag Almannavarna vegna opnunar Grindavíkur, með takmörkunum kynnt.  Með Víði verður Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum.

Eins og kunnugt er þá hefur í nokkurn tíma staðið yfir vinna við að opna Grindavík fyrir íbúa og fyrirtæki, með takmörkunum.  Að lifa í þeirri óvissu sem íbúar Grindavíkur hafa gert síðustu daga, vikur og mánuði er eitthvað sem enginn ætti að þurfa að upplifa. Með það að leiðarljós, að minnka óvissuna eins og hægt er,  og að koma Grindvíkingum heim á sem öruggastan hátt til að huga að eignum sínum, athuga með skemmdir og sækja nauðsynjar hafa Almannavarnir nú unnið að skipulagi sem kynnt verður á morgun.

Gert er ráð fyrir að fjölmiðlafólk geti tekið viðtöl eftir fundinn. Fundinum verður streymt, táknmálstúlkaður og túlkaður á pólsku.