Upplýsingar frá vinnuhópi um ferðatakmarkanir vegna COVID-19

Vinnuhópur um ferðatakmarkanir var skipaður í byrjun febrúar með fulltrúum frá sóttvarnalækni, ISAVIA, Tollasviði Skattsins, Útlendingastofnun, Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkislögreglustjóra, sem jafnframt stýrði vinnu hópsins.
Vinnuhópur um ferðatakmarkanir var skipaður í byrjun febrúar með fulltrúum frá sóttvarnalækni, ISAVIA, Tollasviði Skattsins, Útlendingastofnun, Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkislögreglustjóra, sem jafnframt stýrði vinnu hópsins.

Markmið hópsins var að greina þær heimildir sem eru fyrir hendi til að takmarka ferðafrelsi einstaklinga vegna COVID-19 og mögulegrar smithættu með vísan til almannaöryggis/almannaheilbrigðis. Helstu niðurstöður hópsins eru:

Aðgerðir annarra ríkja sem hafa beitt skimunum við landamæraeftirlit í fyrri faröldrum og vegna COVID-19 hafa ekki borið árangur.

Öll viðbrögð íslenskra stjórnvalda miðast við áhættumat Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Sóttvarnarstofnun Evrópusambandsins (ECDC), sóttvarnalæknis og löggæsluyfirvalda hverju sinni. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur heimildir til að gefa fyrirmæli um ferðatakmarkanir fólks í samræmi við alþjóðaheilbrigðisreglugerðina til varnar útbreiðslu farsótta. Staðan er stöðugt endurmetin hér á landi frá degi til dags með hliðsjón af nýjustu upplýsingum.

Ísland er aðili að Schengen samstarfinu sem felur m.a í sér afnám landamæraeftirlits sem er ætlað að greiða fyrir frjálsri för fólks innan Evrópusambandsins, en frjáls för fólks er einn liður í fjórfrelsi innri markaðar Evrópusambandsins sem Ísland gerðist aðili að með EES-samningnum. ESB hefur sett á laggirnar viðbragðs- og samstarfsvettvang, sem Ísland er aðili að, en á þeim vettvangi eru til umræðu aðgerðir ríkja á landmærum Schengen svæðisins með hliðsjón af COVID-19. Íslensk stjórnvöld taka virkan þátt á þessum vettvangi til að fylgjast með þróun mála.

Heimilt er að taka upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum ef fyrirsjáanleg ógn er til staðar, t.d. ógn við almannaheilsu. Mjög fá ríki í Evrópu hafa enn sem komið er beitt slíkum úrræðum en þau hafa verið notuð til þess að styðja við skimanir heilbrigðisyfirvalda á staðnum. Slíkar ráðstafanir hafa eins og áður sagði ekki borið árangur hingað til.

Öflugustu aðgerðirnar til að hindra útbreiðslu veirunnar eru sóttvarnarúrræði á borð við einangrun smitaðra einstaklinga og sóttkví þeirra sem taldir eru í hættuhópi. Mikilvægt er að þessum úrræðum sé beitt með viðeigandi hætti. Þá er mikilvægt að upplýsa almenning um nauðsynlegt hreinlæti og önnur forvarnarúrræði til að koma í veg fyrir smit og hvetja fólk til þess að fylgjast náið með ferðaviðvörunum sóttvarnalæknis. Sérstaklega þarf að huga að upplýsingagjöf til þeirra sem gætu mögulega verið í áhættuhópi eða hafa verið á áhættusvæði og hvetja þann hóp til að fara eftir fyrirmælum um einangrun eða sóttkví eftir atvikum.

Eftirtalin úrræði voru m.a. skoðuð:

Afturkallanir/synjanir vegabréfsáritana: Hægt er að afturkalla eða hætta útgáfu vegabréfsáritana en slíkt hefði lítil áhrif í ljósi þess að Ísland tekur þátt í sameiginlegri áritanastefnu ESB. Slík aðgerð myndi einungis hafa áhrif ef fleiri ríki myndu einnig synja um útgáfu áritana einstaklinga sem koma frá sýktum svæðum.

Frávísanir á landmærum vegna ógnar við almannaöryggi: Lagaheimild er til staðar í útlendingalögum að frávísa einstaklingum á landamærum með vísan til almannaheilsu en slíkt erfiðleikum bundið í framkvæmd. Um er að ræða innleiðingu á sameiginlegum reglum Schengen-samstarfsins en í leiðbeiningum um túlkun reglnanna kemur fram að heimildin til að beita frávísunum á ytri landamærunum er bundin því að þar til bærir aðilar, þ.e. Sóttvarnarstofnun ESB (ECDC), hafi komist að niðurstöðu um að slíkt sé nauðsynlegt. Erfitt er að sjá að Ísland geti framkvæmt slíkt án þess að það sé hluti af sameiginlegum aðgerðum Schengen ríkjanna..

Frávísanir einstaklinga áður en þeir stíga um borð í loftfar erlendis: Slík heimild er ekki staðar enda fer landamæraeftirlit fram á viðurkenndum landamærastöðvum á íslensku yfirráðasvæði.

Heimildir til að loka landinu: Hópurinn telur að íslensk stjórnvöld hafi heimildir til að loka landinu með vísan til almannaheilbrigðis. Í þeim efnum koma til skoðunar t.d. ákvæði laga um sóttvarnir, um loftferðir og ákvæði laga um útlendinga. Afar mikilvægt er þó að sóttvarnaviðbrögð séu í samræmi við áhættumat og vega þarf áhrif viðbragða á móti áhrifum farsóttarinnar. Ef landinu er lokað komast Íslendingar sem staddir eru erlendis ekki heim (nema undirbúinn verði sérstakur heimflutningur) og aðföng og útflutningur raskast. Möguleikinn á þessu úrræði er í stöðugri endurskoðun í samræmi við áhættumat á hverjum tíma.

Ferðatakmarkanir og úrræði innanlands

Heimildir sóttvarnalæknis: Sóttvarnalæknir hefur ríkar heimildir til að beita ýmsum ráðum til að sporna við útbreiðslu farsótta á grundvelli sóttvarnarlaga, svo sem að fyrirskipa einangrun, sóttkví eða grípa til annarra aðgerða, s.s. að fyrirskipa læknisrannsókn, einangrun hins smitaða á sjúkrahúsi og viðahafa aðrar nauðsynlegar ráðstafanir. Áður en gripið er til þvingunaraðgerða skal þó ætíð reynt að leysa mál með öðrum hætti. Sóttvarnalæknir getur kallað lögreglu til aðstoðar til að framfylgja þeirri skipan.

Heimildir lögreglu: Lögregluyfirvöld hafa miklar valdheimildir komi til hættuástand, og gildir einu um hvers konar hættu er að ræða. Samkvæmt ákvæði 23. gr. almannavarnalaga getur lögreglustjóri gefið fyrirmæli sem öllum er skylt að hlíta, m.a. fyrirmæli um að banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum og að vísa fólki á brott eða fjarlæga fólk. Þótt ferðamenn fengju inngöngu inn í landið á landamærum flugvallarins, gæti lögreglustjóri lokað fyrir umferð til nærliggjandi byggðalaga.

Niðurstaða/Almennt
Ef áhættumat sóttvarnalæknis breytist á þann veg að greina þurfi áhættuhópa á landamærum með skipulegum hætti er unnt að taka hér upp tímabundið landamæraeftirlit og beina þá slíkum málum í viðeigandi farveg. Það getur þá falið í sér aðgerðir á borð við læknisrannsóknir, einangrun eða sóttkví á grundvelli hættumats eða heimila för einstaklinga inn í landið með upplýsingum um hvert það eigi að snúa sér ef einkenni koma fram.
Á þessum tímapunkti hefur ekki þótt ástæða til að loka landinu né bendir áhættumat til þess að upptaka tímabundins landamæraeftirlits myndi bera árangur við að hefta útbreiðslu veirunnar. Afar mikilvægt er að sóttvarnaviðbrögð séu í samræmi við áhættumat og vega þarf áhrif viðbragða á móti áhrifum farsóttarinnar.
Að sama skapi er brýnt að fylgst sé grannt með stöðu mála og að undirbúningur þeirra aðgerða sem hér hafa verið nefndar sé hafinn svo hægt sé að bregðast við með skjótum hætti ef til þess kæmi. Möguleikinn á þessum úrræðum þarf að vera og er í stöðugri endurskoðun í samræmi við áhættumat á hverjum tíma. Í því sambandi er mikilvægt að hafa sérstöðu Íslands í huga, þá sérstaklega m.t.t. smæðar landsins og innviða til að takast á við útbreiðslu faraldar á borð við COVID-19.