Viðvaranir vegna slæms veðurs og vatnavaxta

Veður viðvörun
Veðurstofa Íslands vill vekja athygli á að spáð er mjög slæmu veðri um allt land á morgun, laugardaginn 12. mars.
Nánar um útlitið:
Í kvöld og nótt nálgast mjög kröpp og djúp lægð landið sunnan úr hafi. Lægðinni fylgir suðaustanhvassviðri eða -stormur með talsverðri slyddu eða rigningu í nótt og fyrramálið, einkum suðaustanlands. Síðan snýst í suðvestanstorm eða -rok með éljagangi, jafnvel ofsaveðri norðvestan til.
Vegfarendur eru beðnir að fylgjast vel með veðurspám og ástandi vega á morgun.

Viðvörun vegna vatnavár á Suður- og Vesturlandi sunnudaginn 13. mars
Veðurstofan varar einnig við miklum vatnavöxtum í ám á Snæfellsnesi, á Hvítársvæðinu (bæði vestur og suður af Langjökli), á vatnasviði Norðurár í Borgarfirði, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul.
Á sunnudag um hádegisbil er spáð mikilli rigningu á sunnan og vestanverðu landinu samhliða hlýnandi veðri. Því má búast við asahláku á Snæfellsnesi, Hvítársvæðinu (bæði vestan og sunnan við Langjökul), á vatnasviði Norðurár í Borgarfirði, kringum Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnanverðan Vatnajökul. Þetta verður fyrsta asahláka ársins og má því búast við miklu vatns rennsli vegna úrkomu og leysingarvatns.
Eftirfarandi mynd sýnir nýjasta spálíkan okkar Harmonie (frá kl.12 á hádegi) en þar er spáð fyrir um uppsafnað afrennsli kl 00:00 á miðnætti aðfaranótt mánudags. Sjá má að spáð er yfir 40 mm á tólf klukkustundum á þeim svæðum sem viðvörunin tekur til.

Frétt_11.03.2016

Vegna þessara viðvarana Veðurstofunnar hvetur almannavarnadeildin vegfarendur að fylgjast vel með veðurspám á vef Veðurstofunnar www.vedur.is og ástandi vega og færð á vefsíðu Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is sérstaklega ef lagt er í langferð. Þar sem búist er við mikilli hláku er brýnt að hreinsa frá niðurföllum og sýna aðgát við akstur.