Viðvörun vegna ferða á Svínafellsjökul

Sprungur í Svínafellsheiði – Viðvörun 22.06.2018 frá lögreglunni á Suðurlandi, sveitarfélaginu Hornafirði, Vatnajökulsþjóðgarði og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að höfðu samráði við Veðurstofu Íslands

Haustið 2014 fundu bændur á Svínafelli sprungu ofan Svínafellsjökuls, í norðanverðri hlíðinni milli Skarðatinds og Svarthamra á ofanverðri Svínafellsheiði. Hlíðin á þessum stað er brött og rís um 400 m yfir yfirborð jökulsins. Breidd sprungunnar var mæld árið 2016 og mælingin var endurtekin árið 2017. Þá kom í ljós að sprungan hafði gliðnað um 0,4 til 1,3 cm á einu ári. Vorið 2018 uppgötvaðist önnur sprunga sem liggur skáhallt niður vesturhlíð Svínafellsheiðar. Nýleg greining á myndum frá gervitunglum sýnir að svæðið neðan sprungnanna hreyfðist um 2 til 4 cm frá mánaðamótum ágúst/september 2016 og fram til sama tíma árið 2017. Svæðið sem hreyfist er 0,5–1 km2 að flatarmáli og gróft fyrsta mat gefur til kynna að rúmmál efnisins á hreyfingu gæti verið yfir 60 milljón m3. Ekki er hægt að útiloka að allt stykkið hlaupi fram í heilu lagi í stóru berghlaupi niður á jökulinn, en einnig gæti það hrunið í smærri hlutum. Aldur sprungnanna er óþekktur, þær sjást ekki á loftmynd frá 2003 en eru greinilegar á landlíkani frá 2011. Þær hafa því líklega myndast og orðið sýnilegar á yfirborði einhvern tíma á þessu tímabili.

Mynd 1. Staðsetning sprungunnar sem fannst árið 2014 efst á norðurhlíð Svínafellsheiðar ofan við austanverðan Svínafellsjökul. (Kort frá Daniel Ben-Yehoshua 2016).

Samfara hlýnandi loftslagi á undanförnum árum og áratugum hafa skriðjöklar hopað og þynnst mikið hér á landi. Þegar jöklarnir hopa standa oft eftir brattar hlíðar ofan skriðjökla sem kunna að vera óstöðugar þegar aðhaldi jökulsins sleppir og geta hrunið niður á jöklana, stundum í miklum berghlaupum. Slík hlaup eru þekkt víða um heim. Hér á landi hafa tvö stór berghlaup fallið á jökla á síðastliðinni hálfri öld. Árið 1967 féll mjög stórt berghlaup ofan Steinsholtsjökuls, sem gengur norður úr Eyjafjallajökli, og árið 2007 féll berghlaup á Morsárjökul í sunnanverðum Vatnajökli. Berghlaup sem falla á jökla geta brotið upp jökulís og hrifið með sér vatn úr jökullónum þannig að úr verður hlaup sem er sambland af jarðefnum, vatni og ís. Slík hlaup geta í sumum tilfellum dreift mikið úr sér og ferðast langar leiðir.

VIÐVÖRUN: Almannavarnir vara við ferðum á jökulinn við þessar aðstæður og beina þeim tilmælum  til ferðaþjónustuaðila að þeir fari ekki með hópa ferðamanna á Svínafellsjökul vegna hættu á skriðuföllum á jökulinn. Einnig er þeim tilmælum beint til ferðafólks að menn staldri stutt við á útsýnisstöðum við sporð Svínafellsjökuls til þess draga úr hættu sem felst í ferðalögum í nágrenni við jökulinn.