Yfirlit vegna virkni Öræfajökuls og staða mála vegna sprungna í Svínafellsheiði í októberlok 2018

Um miðjan mánuðinn komu vísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskólans og Veðurstofunni ásamt fulltrúa frá almannavarnadeild saman til að fara yfir stöðuna varðandi virkni Öræfajökuls á undanförnum misserum.

Eins og fram hefur komið áður á þessum vettvangi þá tók fjallið að þenjast út um áramótin 2016 og 2017. Frá þeim tíma hefur jarðskjálftavirkni í fjallinu farið vaxandi og hefur hún heldur færst í aukana frá því í sumar.

Miðvikudaginn 26. október boðaði bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar til almenns íbúafundar í Hofgarði í Öræfum. Á fundinum fór Kristín Jónsdóttir hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands yfir jarðskjálftavirkni í Öræfajökli á síðustu mánuðum og jafnframt greindi hún frá niðurstöðum vöktunarmælinga Veðurstofunnar á svæðinu umhverfis Öræfajökul. Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans greindi frá niðurstöðum aflögunarmælinga sem unnar eru með GPS mælum og með úrvinnslu gagna frá ratsjárgervitunglum.

Samantekt á niðurstöðum vísindamanna varðandi eldfjallið má finna á vef Veðurstofunnar: Yfirlit vegna Öræfajökuls.

Kortið sýnir síritandi mælitæki sem notuð eru við sólarhringsvöktun Öræfajökuls á Veðurstofu Íslands. Mikil uppbygging hefur átt sér stað frá hausti 2017 en ólík mælitæki í grennd við eldstöðina hjálpa til við að túlka ástandið.

Á íbúafundinum var einnig fjallað um sprungur í Svínafellsheiði og rannsóknir og áætlanir þeim tengdar. Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur við Háskóla Íslands fjallaði almennt um skriðuhættu í fjöllum á Ísalndi og tengls hættunnar við hrörnandi sífrera í fjöllum og stækkandi jökullón. Jón Kristinn Helgason lýsti þeirri rannsóknarvinnu sem fram fór á Svínafellsheiði í sumar og vöktunartækjum sem komið hefur verið upp þar. Jón Kristinn greindi einig frá því hvaða vinna væri fyrirhuguð í vetur vegna verkefnisins en ætlunin er að drög að hættumati liggi fyrir næsta vor. Upplýsingar um stöðu mála varðandi Svínafellheið má finna í „Minnisblaði um vöktun á hættu á berghlaupi úr Svínafellsheiði„.

Víðir Reynisson almannavarnafulltrúi lögreglunnar á Suðurlandi fór yfir vinnu sem snýr að gerð viðbragðsáætlana bæði vegna eldgoss í Öræfajökli og einnig vegna hugsanlegs berghlaups úr Svínafellsheiði. Sigrún Bjarnadóttir dýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma hjá Matvælastofnun fjallaði um atriði varðandi flutning dýra úr sveitinni og að lokum fór Kjartan Þorkelsson nokkrum orðum um styrkingu lögreglunnar í umdæminu og verkefni framundan.