Aðkoma að Grindavík bæði um Suðurstrandaveg og Nesveg.

Á morgun, sunnudaginn 4. febrúar fara yfir 1000 manns inn til Grindavíkur að vitja eigna sinna og/eða aðstoða við að pakka og/eða flytja búslóð.   Fyrr í kvöld voru sendir yfir 600 QR kóðar til þeirra sem höfðu fengið úthlutaðan tíma í fyrramálið kl. 8 og á morgun verða sendir yfir 500 QR kóðar fyrir þau sem fara inn i bæinn kl. 15.   Um 400 bifreiðar verða í bænum í báðum tímahólfum.

Aðkoma að Grindavík verður bæði um Suðurstrandarveg og Nesveg en ekið er frá Grindavík um Norðurljósaveg inn á Grindavíkurveg.  Á lokunarpóstum verður starfsfólk sem skannar QR kóðann hjá öllum sem fara inn í bæinn, með þeim hætti er vitað hvað margir eru í Grindavík hverju sinni.  Veðurstofa Íslands bætti við sína vöktun næstu tvo daga til að tryggja að stöðugt verði fylgst með jarðskjálftavirkni, GPS-mælingum og öðrum gögnum á meðan íbúar eru í Grindavík.  Vegagerðin verður einnig á vaktinni og tryggir þannig að vegir verða færir til Grindavíkur.

Þau sem töldu sig ekki geta bjargað geymslurými sjálf hafa fengið svör um að hægt verði að koma þeirra búslóð í geymslur sem staðsettar eru á Flugvöllum 20 í Reykjanesbæ, Tekið verður á móti búslóðum frá 11:00-23:00.  Verið er að vinna í að semja við aðra geymsluaðila.

Vert er að taka fram að hægt er að nýta sama flutningabílinn til að flytja verðmæti úr fleiri en einu húsi. Og eins og áður hefur komið fram þá er hægt að nálgast kassa, límband, dagblöð og bóluplast við verslun Nettó þá daga sem flutningar standa yfir. 

Hér inn á vefsíðu Almannavarna er hægt að fá ýmis svör við spurningum sem upp koma. Það skjal er uppfært nokkrum sinnum á dag, eða eftir spurningum sem berast til okkar.

Hér er hægt að nálgast Öryggiskort Grindavíkur