Samkomulag um áfallahjálp í skipulagi almannavarna á Íslandi

Nýverið var skrifað undir samkomulag um áframhaldandi umsjón Rauða krossins á Íslandi á áfallahjálp í skipulagi almannavarna til næstu 5 ára.  Aðilar að samkomulaginu eru  Rauði krossinn, Ríkislögreglustjóri, Embætti landlæknis, Landspítali, Biskupsstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga. Samkomulagið felur í sér að Rauði krossinn á Íslandi sér um samhæfingu og hefur umsjón með áfallahjálp á Íslandi í umboði samstarfsaðila og samkvæmt samkomulagi um hjálparlið almannavarna frá 2012, sem jafnframt er staðfest af ráðherra.

Í samráðshópi áfallahjálpar á landsvísu sitja fulltrúar frá aðilum samkomulagsins. Hlutverk samráðshópsins er að móta stefnu og gæta þess að besta þekking og úrlausnir á sviði áfallahjálpar endurspeglist í skipulagi áfallahjálpar á hverjum tíma, en áfallahjálp er sérhæfð þjónusta við fólk sem lendir í áföllum og byggir á viðurkenndum aðferðum til að bregðast við bráðum áfallastreituviðbrögðum og beinist að því að draga úr uppnámi og stuðla þannig að betri aðlögun eftir áfallið. Áfallahjálp er afmörkuð, tímabundin og með áherslu á forvarnir og mat á þörf fyrir frekari eftirfylgd. Áfallahjálp í skipulagi almannavarna er veitt af fagfólki og sérþjálfuðum sjálfboðaliðum.

Á hamfaratímum vinnur samráðshópurinn áætlun um hvernig áfallaþjónusta færist frá Rauða krossinum inn í heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustu sveitarfélaga, stofnanir kirkjunnar á landsvísu eða til einkaaðila þegar neyðaraðgerðum lýkur eða eftir því sem aðgerðum vindur fram, í samráði við samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna. Vegna atburða á einstökum stöðum á landinu vinna Rauði krossinn og samráðshópur á landsvísu í nánu samstarfi við samráðshópa um áfallahjálp í öllum almannavarnaumdæmum. Eru þeir samráðshópar einnig mannaðir fulltrúum frá Rauða krossinum, heilbrigðisstofnunum, sveitarfélögum, kirkju og lögreglu í hverju umdæmi fyrir sig. Vinna hóparnir með upplýsingagjöf og fræðslu auk þess sem þeir gera áætlun í samstarfi við aðgerðastjórn almannavarna í umdæminu um það hvernig áfallaþjónustan færist yfir til þjónustu í viðkomandi umdæmi.

Samkomulag um áfallahjálp í skipulagi almannavarna á Íslandi má nálgast á vefsíðu almannavarnadeildarinnar undir liðnum útgefið efni